Þrefalt meira selt af hrefnukjöti en í fyrra

11 Aug

Viðskiptin í júnímánuði 2011 báru þess einkenni að sumarið kom seint í ár og ferðafólk skilaði sér því seinna en ella. Eldgosið í Grímsvötnun, sem hófst 21. maí, hafði sömuleiðis áhrif á ferðamannastrauminn erlendis frá.

Umsvifin voru þannig merkjanlega minni hjá okkur í júní en í sama mánuð í fyrra. Hins vegar  var mjög mikið að gera allan júlímánuð, meira en í sama mánuði í fyrra, og sömu sögu er að segja af ágústmánuði. Erlendu ferðamennirnir streyma að og við sjáum líka greinilega fjölgun Íslendinga í viðskiptavinahópnum.

Athvarf útgerða báta til hvalaskoðunar á Faxaflóa er í nokkurra metra fjarlægð frá Sægreifanum og á sömu slóðum liggja veiðiskip Hvals hf. við bryggju. Fjöldinn allur af ferðamönnum kemur á Sægreifann að hvalaskoðun lokinni til að fá sér að borða og hvað skyldi margir þeirra biðja um? Hrefnukjöt! Og merkilegt er það að þrefalt meira hrefnukjöt hefur verið selt hjá okkur sumarið 2011 en á sama tíma í fyrra. Útlendir túristar eru stærsti kúnnahópurinn í þeim efnum en við skynjum líka vaxandi áhuga Íslendinga fyrir þessu góða kjöti til grillunar.

Almennt séð tökum við svo sérstaklega eftir því hve margt ungt fólk kemur hingað í fyrsta sinn til að fá sér að borða og birtist jafnvel aftur nokkrum dögum síðar.

Eftirtektarvert er líka að við fáum starfsmenn af vinnustöðum í nágrenninu oftar í hádegismat en áður, sem sýnir jafnframt að sjálft svæðið hefur breyst. Hér eru einfaldlega fleiri vinnustaðir alveg á næstu grösum og umhverfið allt er líflegra en áður.